Umhverfisinnblásinn kveðskapur

Gestabok

Gestabækur, hvar sem er, innihaldar mikilvægar heimildir. Sem dæmi, má finna í gamalli gestabók í “skýlinu” í Fljóti, staðfestingu á því hvaða dag ísbjörninn var veginn.

Þar sjást líka skrif um vinnuferðir sem voru farnar þegar Atlastaðir voru byggðir árið 1969, og þar má finna kvartanir erlendra ferðamanna um að hús og vistir væri ekki eins og þeir hefðu átt von á, samkvæmt þeim upplýsingum sem ferðafrömuðurinn Dick Philips hafði veitt þeim aðgang að. IMG_2918Maðurinn sá var talinn hafa skipulagt ferðir þar sem fólk gekk á milli  “rauðu húsanna”  – sem sagt skýla Slysavarnarfélagsins –  og gat því gengið án þess að bera með sér tjald. Ég er ekki viss um að það hafi nokkurn tíma sannast að hann hafi þegið greiðslur fyrir næturgistinguna.

Gönguhópur
Gönguhópur, nýfarinn framhjá Atlatungu á leið frá skýlinu til Látra í Aðalvík. Kroppað út úr stærri mynd frá 2010

Það er gaman að fletta gestabókum, en svo má spyrja: Hver á höfundarétt af því sem þar stendur? Getur maður leyft sér að birta það sem fólk ritar? Það er ekki sjálfgefið, eða í það minnsta þarf að fara varlega með það.

Svo er það skáldagyðjan! Stundum fær fólk þvílíkan innblástur á ferð um Fljót – fer á flug og skrifar hendingar. Þá er komið að yfirskrift þessa pistils :

Umhverfisinnblásinn   kveðskapur

 • Við túnfót er tærasta veiðiá
 • þar trauðla um ósinn við stukkum
 • Hjá Boggu við bönkuðum upp á
 • og býsn öll af kaffi við drukkum
 • Er komum við þreytt hér til Fljóta
 • hún bauð okkur gistingar njóta.
 • Við þáðum það fús
 • og flykktumst í hús
 • og kepptust þar öll við að hrjóta.
 • Fljótavíkin, hún féll í stafi
 • er ferðamann að garði bar,
 • það gekk ekki gára frá landi né hafi
 • og glampandi sól yfir lygnunni var.
 • Ég mæri þín gæði, Fljótavíkin blíða.
 • Falli þér hamingja og friður í skaut
 • þegar dagar og nætur svo dýrðlega líða
 • er dálítið sorglegt að hverfa á braut.
 • Gestabók 10Bygging traust og bjálkar stórir
 • hvergi betri, veggir góðir.
 • Fyrir utan fegurð slík
 • er bara fínt í Fljótavík.
 • Frá Reykjafirði ferðalangar
 • þreyttir eftir ferðir strangar.
 • Koma hér og henda þungu,
 • hvílast vel í Atlatungu.
 • Því vil ég færa þakkir þeim,
 • er þá við tóku mönnum tveim
 • og vil ég ferðafólk á minna
 • að betra fólk er hvergi að finna.

Ritstjóri tekur sér það “skáldaleyfi” að geta þess ekki, hverjir eru skráðir fyrir hendingunum – það kemur e.t.v. síðar. Það er vitað að um fullt af svona löguðu í gestabókunum. Það væri einfalt mál fyrir dvalargesti á þessum snjallsímatímum að senda ritstjóra mynd af vísum – eða því sem ætti að eiga heima í tímalínu síðunnar.

Hvernig væri nú að setja sér það sem markmið?

Ásgeir

EnglishUSA